Hoppa beint í efnið

Bálreiðir prestar fá mildileg viðbrögð

Bálreiðir prestar fá mildileg viðbrögð

 Artur er farandhirðir í söfnuði Votta Jehóva í Armeníu. Þegar hann heimsótti söfnuð þar í landi áttaði hann sig á að söfnuðurinn hafði enn ekki tekið þátt í boðun meðal almennings, sem getur falið í sér að nota ritatrillur með biblíutengdu efni. Artur, Anna konan hans og annar vottur sem heitir Jirayr settu því upp ritatrillu í litlum bæ til að hvetja boðbera til að nota þess konar boðunaraðferð. Þau völdu stað þar sem voru margir gangandi vegfarendur.

 Fólk sýndi strax áhuga og tók rit. En þessi nýja boðunaraðferð vakti fljótt athygli andstæðinga. Tveir prestar gengu að ritatrillunni og allt í einu sparkaði annar þeirra í trilluna svo að hún valt um koll. Síðan sló hann Artur í andlitið svo að hann missti gleraugun á jörðina. Artur, Anna og Jirayr reyndu að róa prestana niður en án árangurs. Prestarnir tröðkuðu á trillunni og ritin flugu í allar áttir. Þegar þeir höfðu síðan bölvað vottunum og hótað fóru þeir.

 Artur, Anna og Jirayr fóru á lögreglustöðina til að leggja fram kæru. Þau gáfu skýrslu og sögðu nokkrum lögregluþjónum og öðru starfsfólki stuttlega frá Biblíunni. Vottarnir þrír voru síðan kallaðir inn til lögreglustjórans. Fyrst vildi hann vita nákvæmlega hvað hafði gerst. En þegar hann komst að því að Artur, sem er þrekvaxinn maður, hafði ekki slegist á móti hætti hann að spyrjast út í atvikið og fór að spyrja um trúarkenningar Vottanna. Þau ræddu saman í fjórar klukkustundir! Lögreglustjórinn var svo hrifinn af því sem hann heyrði að hann kallaði upp yfir sig: „En frábær söfnuður! Ég vil líka tilheyra honum!“

Artur og Anna.

 Daginn eftir, þegar Artur var að boða trúna á ný meðal almennings, kom til hans maður sem hafði orðið vitni að atburðarásinni deginum áður. Maðurinn hrósaði Artur fyrir að halda ró sinni og svara ekki í sömu mynt. Hann sagði einnig að það sem hann hafði séð hafi orðið til þess að hann missti alla virðingu fyrir prestunum.

 Um kvöldið boðaði lögreglustjórinn Artur aftur á lögreglustöðina. En í stað þess að ræða kæruna spurði hann fleiri spurninga um Biblíuna. Tveir aðrir lögregluþjónar tóku þátt í umræðunum.

 Næsta dag heimsótti Artur lögreglustjórann enn aftur. Í þetta sinn sýndi hann honum nokkur biblíutengd myndbönd. Lögreglustjórinn kallaði á aðra lögregluþjóna svo að þeir gætu líka séð myndböndin.

 Slæm hegðun prestanna varð til þess að margir lögregluþjónar fengu að heyra sannleika Biblíunnar í fyrsta sinn. Þetta gaf þeim góða mynd af Vottum Jehóva.