Hoppa beint í efnið

Sundra Vottar Jehóva fjölskyldum eða byggja þeir þær upp?

Sundra Vottar Jehóva fjölskyldum eða byggja þeir þær upp?

 Vottar Jehóva leggja sig fram við að byggja upp fjölskyldur – bæði sínar eigin og annarra. Við virðum Guð sem skapara fjölskyldunnar. (1. Mósebók 2:21–24; Efesusbréfið 3:14, 15) Hann kennir okkur meginreglur í Biblíunni sem hjálpa fólki um allan heim að eiga farsæl og traust hjónabönd.

Hvernig stuðla Vottar Jehóva að traustum fjölskyldum?

 Við gerum okkar besta til að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar. Þær hjálpa okkur að verða betri eiginmenn, eiginkonur og foreldrar. (Orðskviðirnir 31:10–31; Efesusbréfið 5:22–6:4; 1. Tímóteusarbréf 5:8) Viska Biblíunnar getur líka hjálpað trúarlega skiptum fjölskyldum. (1. Pétursbréf 3:1, 2) Sjáðu hvað þetta fólk, sem er ekki vottar Jehóva, segir um að makinn skuli hafa gerst vottur:

  •   „Fyrstu sex árin okkar saman einkenndust af rifrildum og pirringi. En eftir að Ivete gerðist vottur Jehóva varð hún kærleiksríkari og þolinmóðari. Þær breytingar sem hún gerði björguðu hjónabandinu.“ – Clauir frá Brasilíu.

  •   „Ég var mótfallin því að Chansa maðurinn minn færi að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva vegna þess að ég hélt að þeir sundruðu fjölskyldum. En ég sé núna að Biblían hefur haft góð áhrif á hjónaband okkar.“ – Agness frá Sambíu.

 Með boðun okkar hjálpum við fólki að sjá hvernig viska Biblíunnar getur hjálpað því að ...

Valda trúskipti ágreiningi í hjónabandi?

 Þau gera það að vísu stundum. Til dæmis kemur fram í könnun sem rannsóknarfyrirtækið Sofres gerði árið 1998 að í 1 af hverjum 20 hjónaböndum þar sem aðeins annar aðilinn er vottur komu upp alvarleg vandamál þegar hann skipti um trú.

 Jesús sagði fyrir að þeir sem færu eftir kenningum hans myndu stundum búa við fjölskylduerjur. (Matteus 10:32–36) Sagnfræðingurinn Will Durant segir um Rómaveldi: „Kristnir menn voru sakaðir um að sundra heimilum.“ a Sumir votta Jehóva eru sakaðir um það sama nú á dögum. En þýðir það að votturinn sé valdur að ágreiningnum?

Mannréttindadómstóll Evrópu.

 Mannréttindadómstóll Evrópu sagði í úrskurði sínum um þá ákæru að Vottar Jehóva sundri fjölskyldum að fjölskylda og ættingjar sem eru ekki vottar valdi oft ágreiningi með því að neita að „virða og viðurkenna frelsi ættingja sinna til að tjá trú sína og stunda hana“. Dómstóllinn bætti við: „Þetta er algengt í öllum trúarlega skiptum hjónaböndum og vottar Jehóva eru þar engin undantekning.“ b Þó að vottar Jehóva þurfi oft að þola umburðarleysi vegna trúar sinnar reyna þeir alltaf að fylgja þessum leiðbeiningum Biblíunnar: „Gjaldið engum illt með illu ... Ef hægt er skuluð þið halda frið við alla menn að svo miklu leyti sem það er á ykkar valdi.“ – Rómverjabréfið 12:17, 18.

Hvers vegna trúa vottar Jehóva að þeir eigi aðeins að giftast einhverjum innan safnaðar síns?

 Vottarnir fara eftir ráðum Biblíunnar um að giftast einstaklingi „aðeins ef hann þjónar Drottni“, það er að segja giftast þeim sem hefur sömu trúarskoðanir. (1. Korintubréf 7:39) Þessi fyrirmæli eru bæði biblíuleg og gagnleg. Í grein frá 2010 í Journal of Marriage and Family segir til dæmis að „hjón sem tilheyra sömu trú og iðka hana á sama hátt“ eigi gjarnan betra samband en önnur. c

 En Vottar Jehóva hvetja ekki þá sem eru í söfnuðinum til að skilja við maka sinn sem er ekki vottur. Í Biblíunni segir: „Ef bróðir á vantrúaða konu og hún er sátt við að búa áfram með honum á hann ekki að yfirgefa hana. Og ef kona á vantrúaðan eiginmann og hann er sáttur við að búa áfram með henni á hún ekki að yfirgefa hann.“ (1. Korintubréf 7:12, 13) Vottar Jehóva fara eftir þessum fyrirmælum.

a Sjá Caesar and Christ, bls. 647.

b Sjá dómsúrskurð málsins Jehovah’s Witnesses of Moscow and Others v. Russia, bls. 26–27 grein 111.

c Sjá Journal of Marriage and Family, 72. bindi, nr. 4 (ágúst 2010), bls. 963.