Hvert er viðhorf Votta Jehóva til jarðarfara?
Viðhorf okkar og venjur í tengslum við jarðarfarir byggjast á kenningum Biblíunnar. Það felur meðal annars í sér:
Það er eðlilegt að syrgja látinn ástvin. Lærisveinar Jesú syrgðu ástvini sína. (Jóhannes 11:33-35, 38; Postulasagan 8:2; 9:39) Við lítum því ekki á jarðarför sem tíma fyrir gleðskap. (Prédikarinn 3:1, 4; 7:1-4) Þess í stað álítum við að hún sé tími til að sýna samkennd. – Rómverjabréfið 12:15.
Dánir hafa enga meðvitund. Við tökum ekki þátt í neinum siðvenjum sem tengjast þeirri trú að dánir hafi meðvitund og geti haft áhrif á þá sem lifa. Þetta gerum við óháð þjóðerni okkar eða menningarlegum uppruna. (Prédikarinn 9:5, 6, 10) Við forðumst þess vegna siðvenjur á borð við líkvökur, kostnaðarsaman útfarargleðskap eða dánarafmæli, fórnargjafir handa dánum, að reyna að tala við hina dánu eða leita aðstoðar þeirra. Hið sama er að segja um ýmsa siði sem ætlast er til að eftirlifandi maki fylgi. Við forðumst allar þessar siðvenjur í hlýðni við boð Biblíunnar: „Skiljið ykkur frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint.“ – 2. Kor. 6:17.
Dánir hafa von. Biblían kennir að sá tími komi að dánir rísi upp og að dauðinn verði ekki til framar. (Postulasagan 24:15; Opinberunarbókin 21:4) Þessi von hjálpar okkur, eins og hún hjálpaði frumkristnum mönnum, að forðast öfgafullar siðvenjur þegar við syrgjum ástvini. – 1. Þessaloníkubréf 4:13.
Biblían mælir með látleysi. (Orðskviðirnir 11:2) Við lítum svo á að jarðafarir séu ekki tækifæri til að monta sig af eigum sínum. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Við stöndum ekki fyrir íburðarmiklum jarðarförum þar sem markmiðið er að skemmta viðstöddum, þar sem óþarflega dýrar líkkistur eru til sýnis eða dýr klæðnaður notaður til að vekja hrifningu viðstaddra.
Við reynum ekki að þröngva upp á aðra viðhorfi okkar til jarðarfara. Við fylgjum þessari meginreglu: „Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér.“ (Róm 14:12) En þegar tækifæri gefst reynum við að útskýra trú okkar „með hógværð og virðingu.“ – 1. Pétursbréf 3:15, 16.
Hvernig fer jarðarför fram hjá Vottum Jehóva?
Staður: Fjölskylda hins látna getur haldið jarðarför hvar sem hún kýs. Ríkissalur Votta Jehóva er ef til vill notaður, einkaheimili, líkbrennsluhús eða athöfn haldin við gröfina. Sums staðar er hún haldin á útfararstofu.
Athöfn: Ræða er flutt til að veita huggun og útskýra hvað Biblían segir um hina dánu og upprisuvonina. (Jóhannes 11:25; Rómverjabréfið 5:12; 2. Pétursbréf 3:13) Ef til vill er minnst á góða eiginleika í fari hins dána, gjarnan með því að nefna lærdóm sem draga má af trúfastri lífsstefnu hans. – 2. Samúelsbók 1:17-27.
Hugsanlega er sunginn söngur sem byggist á Biblíunni. (Kólossubréfið 3:16) Athöfninni lýkur með hughreystandi bæn. – Filippíbréfið 4:6, 7.
Samskot: Söfnuðurinn tekur ekki gjald fyrir neina þjónustu, ekki heldur jarðarfarir. Samskot fara ekki fram á samkomum okkar. – Matteus 10:8.
Viðstaddir: Fólki utan safnaðarins er velkomið að sækja samkomur í ríkissalnum, það á líka við um jarðarfarir.
Eru vottar Jehóva viðstaddir jarðarfarir hjá öðrum trúfélögum?
Hver og einn vottur ákveður það sjálfur og byggir það á biblíufræddri samvisku sinni. (1. Tímóteusarbréf 1:19) Hins vegar tökum við ekki þátt í trúarlegum athöfnum sem að okkar mati eru ekki í samræmi við Biblíuna. – 2. Korintubréf 6:14-17.