Hverju trúa vottar Jehóva?
Vottar Jehóva leitast við að iðka þá kristnu trú sem Jesús kenndi og postular hans lifðu samkvæmt. Við erum þess vegna kristin. (Postulasagan 11:26) Í þessari grein er yfirlit yfir helstu trúarskoðanir okkar.
Guð. Við tilbiðjum hinn eina sanna og almáttuga Guð, skaparann sem heitir Jehóva. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls; Opinberunarbókin 4:11) Hann er Guð Abrahams, Móse og Jesú. – 2. Mósebók 3:6; 32:11; Jóhannes 20:17.
Biblían. Við lítum á Biblíuna sem innblásinn boðskap Guðs til manna. (Jóhannes 17:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Við byggjum trú okkar á öllum 66 bókum Biblíunnar, bæði Gamla- og Nýja testamentinu. Jason D. BeDuhn, prófessor í trúarbragðafræðum, lýsti þessu réttilega þegar hann skrifaði: „Vottar Jehóva byggja trúarkerfi sitt og trúariðkun á Biblíunni eins og hún er, án þess að ákveða fyrir fram hvað þar er að finna.“ a
Við viðurkennum alla Biblíuna en erum ekki bókstafstrúar. Við gerum okkur grein fyrir að hluti Biblíunnar er skrifaður á líkingamáli sem ætti ekki að taka bókstaflega. – Opinberunarbókin 1:1.
Jesús. Við fylgjum kenningum og fordæmi Jesú Krists og lítum á hann sem frelsara okkar og son Guðs. (Matteus 20:28; Postulasagan 5:31) Við erum þess vegna kristin. (Postulasagan 11:26) En við höfum lært af Biblíunni að Jesús er ekki almáttugur Guð og að þrenningarkenningin á sér ekki stoð í Biblíunni. – Jóhannes 14:28.
Ríki Guðs. Guðsríki er raunveruleg stjórn á himnum, ekki tilfinning í hjörtum kristinna manna. Það mun koma í staðinn fyrir ríkistjórnir manna og hrinda í framkvæmd fyrirætlun Guðs með jörðina. (Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10) Þetta gerist innan skamms því að við lifum á „síðustu dögum“ samkvæmt spádómum Biblíunnar. – 2. Tímóteusarbréf 3:1–5; Matteus 24:3–14.
Jesús er konungur Guðsríkis á himnum. Hann byrjaði að ríkja árið 1914. – Opinberunarbókin 11:15.
Frelsun. Lausnarfórn Jesú opnar mönnum möguleika á frelsun úr fjötrum syndar og dauða. (Matteus 20:28; Postulasagan 4:12) Til að hafa gagn af lausnarfórninni nægir ekki að trúa á Jesú. Fólk verður líka að og breyta lífsstefnu sinni og láta skírast. (Matteus 28:19, 20; Jóhannes 3:16; Postulasagan 3:19, 20) Verkin sýna hvort fólk hafi lifandi trú. (Jakobsbréfið 2:24, 26) En það er ekki hægt að ávinna sér frelsun heldur öðlast menn hana vegna ,einstakrar góðvildar Guðs‘. – Galatabréfið 2:16, 21.
Himnarnir. Jehóva Guð, Jesús Kristur og trúfastir englar eru á andasviðinu. b (Sálmur 103:19–21; Postulasagan 7:55) Hlutfallslega fáir, það er að segja 144.000, fá upprisu til lífs á himnum og ríkja með Jesú í Guðsríki. – Daníel 7:27; 2. Tímóteusarbréf 2:12; Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3.
Jörðin. Guð skapaði jörðina til að vera heimili mannkynsins að eilífu. (Sálmur 104:5; 115:16; Prédikarinn 1:4) Guð blessar þá sem hlýða honum og þeir fá fullkomna heilsu og eilíft líf í paradís á jörð. – Sálmur 37:11, 34.
Illska og þjáningar. Illska og þjáningar komu til sögunnar þegar einn af englum Guðs gerði uppreisn. (Jóhannes 8:44) Þessi engill, sem var kallaður Satan og Djöfull eftir uppreisnina, fékk fyrstu hjónin í lið með sér og það hafði hörmulegar afleiðingar fyrir afkomendur þeirra. (1. Mósebók 3:1–6; Rómverjabréfið 5:12) Til að útkljá siðferðileg deilumál sem Satan kom af stað hefur Guð leyft illsku og þjáningar en hann umber ekki þetta ástand að eilífu.
Dauðinn. Fólk sem deyr hefur ekki lengur meðvitund. (Sálmur 146:4; Prédikarinn 9:5, 10) Það þjáist ekki í logandi víti.
Guð mun reisa milljarða manna upp frá dauðum. (Postulasagan 24:15) Þeim sem neita að hlýða Guði eftir að þeir fá upprisu verður endanlega eytt án vonar um upprisu. – Opinberunarbókin 20:14, 15.
Fjölskyldan. Við fylgjum upphaflegum mælikvarða Guðs varðandi hjónabandið. Það er samband eins manns og einnar konu og kynferðislegt siðleysi er eina gilda ástæðan fyrir skilnaði. (Matteus 19:4–9) Við erum sannfærð um að viska Biblíunnar stuðli að farsælu fjölskyldulífi. – Efesusbréfið 5:22–6:1.
Tilbeiðsla okkar. Við sýnum hvorki krossinum né öðrum táknum lotningu. (5. Mósebók 4:15–19; 1. Jóhannesarbréf 5:21) Tilbeiðsla okkar byggir meðal annars á því að ...
biðja til Guðs. – Filippíbréfið 4:6.
lesa og kynna okkur Biblíuna nánar. – Sálmur 1:1–3.
hugleiða það sem við lærum í Biblíunni. – Sálmur 77:13.
safnast saman til að biðja, stunda biblíunám, syngja, tjá trú okkar og hvetja trúsystkini okkar og aðra. – Kólossubréfið 3:16; Hebreabréfið 10:23–25.
boða ,fagnaðarboðskapinn um ríkið‘. – Matteus 24:14.
hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda. – Jakobsbréfið 2:14–17.
reisa ríkissali og aðrar byggingar, sem eru notaðar í þágu biblíufræðslustarfsins um allan heim, og halda þeim við. – Sálmur 127:1.
veita neyðaraðstoð. – Postulasagan 11:27–30.
Skipulag safnaðarins. Söfnuðir Votta Jehóva eru um allan heim og í hverjum söfnuði fer öldungaráð með umsjón þess safnaðar. Öldungarnir mynda ekki prestastétt og eru ólaunaðir. (Matteus 10:8; 23:8) Við borgum ekki tíund og samskot fara aldrei fram á samkomunum. (2. Korintubréf 9:7) Öll okkar starfsemi er fjármögnuð með frjálsum framlögum frá ónafngreindum einstaklingum.
Fámennur hópur þroskaðra kristinna manna, sem starfa við aðalstöðvar okkar, myndar stjórnandi ráð sem leiðir starfsemi Votta Jehóva um allan heim. – Matteus 24:45.
Eining safnaðarins. Við erum sameinuð í trúarskoðunum um allan heim. (1. Korintubréf 1:10) Við leggjum okkur fram um að gera ekki mannamun eftir þjóðfélagsstöðu, þjóðerni, kynþætti eða stétt. (Postulasagan 10:34, 35; Jakobsbréfið 2:4) En þrátt fyrir einingu safnaðarins getur hver og einn vottur tekið persónulegar ákvarðanir í samræmi við biblíufrædda samvisku sína. – Rómverjabréfið 14:1–4; Hebreabréfið 5:14.
Breytni okkar. Við kappkostum að sýna óeigingjarnan kærleika í öllu sem við gerum. (Jóhannes 13:34, 35) Við forðumst það sem er Guði vanþóknanlegt, þar á meðal misnotkun blóðs og þiggjum þess vegna ekki blóðgjafir. (Postulasagan 15:28, 29; Galatabréfið 5:19–21) Við erum friðsöm og tökum ekki þátt í hernaði. (Matteus 5:9; Jesaja 2:4) Við virðum yfirvöld þar sem við búum og erum löghlýðin svo framarlega sem lögin stangast ekki á við lög Guðs. – Matteus 22:21; Postulasagan 5:29.
Samband okkar við aðra. Jesús bauð: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Hann sagði líka að kristið fólk ætti ekki að ,tilheyra heiminum‘. (Matteus 22:39; Jóhannes 17:16) Við reynum því að „gera öllum gott“ en erum samt algerlega hlutlaus í stjórnmálum og eigum ekki samstarf við önnur trúfélög. (Galatabréfið 6:10; 2. Korintubréf 6:14) Við virðum hins vegar val annarra í slíkum málum. – Rómverjabréfið 14:12.
Ef þú hefur frekari spurningar varðandi trúarskoðanir votta Jehóva geturðu lesið meira um okkur á vefsíðunni okkar, haft samband við eina af skrifstofum okkar, farið á samkomu í næsta ríkissal eða talað við einn af vottunum þar sem þú býrð.
a Sjá bókina Truth in Translation bls. 165.
b Illum englum hefur verið kastað niður frá himnum þótt þeir séu áfram á andasviðinu. – Opinberunarbókin 12:7–9.