Hoppa beint í efnið

Merkur áfangi

Nýheimsþýðing Biblíunnar gefin út

Merkur áfangi

Merkum áfanga var náð 28. júní 2024: Nýheimsþýðing Biblíunnar var gefin út á íslensku.

Nýheimsþýðingin er eftirtektarverð fyrir þá sök hversu nákvæm hún er og trú innblásnum boðskap Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hvaða óheppilegu stefnur í biblíuþýðingum forðuðust útgefendur þessarar þýðingar? Hverjir standa að baki þessari nýju þýðingu? Og hvers vegna geturðu treyst að Nýheimsþýðingin sé áreiðanleg?

Er Biblían þín nákvæm?

„Biblían er metsölubók ársins á hverju ári,“ skrifar Declan Hayes, prófessor í alþjóðaviðskiptum. Því miður viðist löngunin til að gefa út metsölubók stundum vera sterkari en að huga að nákvæmni. Í einni biblíuþýðingu er til dæmis sleppt textum sem útgefendur telja „leiðinlega“. Í annarri biblíu er orðalagi sem gæti stuðað suma nútímalesendur breytt. Þar er til dæmis reynt að höfða til ákveðins lesendahóps með því að kalla Guð „föður-móður“.

Ein óheppilegasta stefnan í biblíuþýðingum snýr eflaust að eiginnafni Guðs, Jehóva. (Sumir fræðimenn þýða nafnið „Jahve“.) Í fornum Biblíum er nafn Guðs skrifað með fjórum hebreskum samhljóðum sem má umrita JHVH. Þetta eiginnafn stendur næstum 7.000 sinnum í Hebresku ritningunum. a (2. Mósebók 3:15; Sálmur 83:18) Skapari okkar vildi greinilega að tilbiðjendur sínir þekktu og notuðu nafnið.

En sökum hjátrúar hættu Gyðingar að segja nafn Guðs upphátt fyrir mörgum öldum. Kristnin smitaðist seinna meir af slíkum hjátrúarhugmyndum. (Postulasagan 20:29, 30; 1. Tímóteusarbréf 4:1) Biblíuþýðendur nú á tímum setja yfirleitt titilinn „Drottinn“ í staðinn fyrir nafn Guðs. Í sumum nýlegum biblíuþýðingum er orðið „nafn“ jafnvel látið falla niður í Jóhannesi 17:6 þar sem Jesús segir: „Ég hef opinberað nafn þitt.“ Versið er orðað svona í Good News Translation: „Ég hef opinberað þig.“

Sumir fræðimenn segjast bara fylgja hefðinni þegar þeir skipta út nafni Guðs fyrir titilinn „Drottinn“. Aðrir viðurkenna að ástæðan sé sú að það auki söluna. b En Jesús fordæmdi það að fylgja hefðum sem kasta rýrð á Guð. (Matteus 15:6) Auk þess er enginn biblíulegur grundvöllur fyrir því skipta á nafni og titli. Jesús Kristur hefur marga titla eins og „Orð Guðs“ og „Konungur konunga“. (Opinberunarbókin 19:11–16) Ætti þá að skipta út nafninu Jesús fyrir einhvern þessara titla?

Þetta er ekki bara fræðilegt mál. Ráðgjafi á Indlandi sem aðstoðar við biblíuþýðingar segir um áhrifin af því að taka nafn Guðs úr Biblíunni: „Hindúar hafa ekki áhuga á hvernig Guð er titlaður. Þeir vilja vita eiginnafn Guðs og ef þeir þekkja hann ekki með nafni geta þeir ekki myndað tengsl við hann.“ Þetta má í rauninni segja um alla sem leita Guðs. Það er nauðsynlegt að vita hvað Guð heitir til að upplifa hann sem persónu sem hægt er að kynnast – en ekki sem eitthvert ópersónulegt afl. (2. Mósebók 34:6, 7) Í Biblíunni segir: „Allir sem ákalla nafn Jehóva bjargast.“ (Rómverjabréfið 10:13) Þeim sem tilbiðja Guð er skylt að nota nafn hans!

Þýðing sem heiðrar Guð

Nafn Guðs, Jehóva, er notað í Nýheimsþýðingunni.

Það voru því mikil tímamót þegar Nýheimsþýðing Grísku ritninganna kom út á ensku árið 1950. Næsta áratuginn voru Hebresku ritningarnar gefnar út í áföngum. Árið 1961 var Biblían gefin út í heild á ensku í einu bindi. Í Nýheimsþýðingunni stendur nafnið Jehóva á öllum þeim tæplega 7.000 stöðum þar sem það er að finna í Gamla testamentinu. En það er sérstaklega eftirtektarvert að nafn Guðs skuli standa í Grísku ritningunum á þeim 237 stöðum þar sem það á heima. c

Að láta nafnið standa í Biblíunni er ekki bara Guði til heiðurs heldur skerpir það líka á skilningi okkar. Svo dæmi sé tekið er Matteus 22:44 oft þýtt á þessa leið: „Drottinn sagði við minn drottin.“ Hver er að tala við hvern? Í Nýheimsþýðingunni er versið þýtt svona: „Jehóva sagði við Drottin minn,“ en það er orðrétt tilvitnun í Sálm 110:1. Lesendur geta þá greint á milli Jehóva Guðs og sonar hans.

Hverjir standa að baki þýðingunni?

Nýheimsþýðingin er gefin út af Watch Tower Bible and Tract Society, lögskráðu félagi sem Vottar Jehóva starfrækja. Vottar Jehóva hafa prentað biblíur og dreift þeim um heim allan í meira en hundrað ár. Nýheimsþýðingin var unnin af hópi votta Jehóva sem kallast Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar. Þýðendurnir sóttust ekki eftir upphefð heldur óskuðu eftir nafnleynd sem myndi gilda jafnvel eftir að þeir væru dánir. – 1. Korintubréf 10:31.

Af hverju er þessi þýðing kölluð Nýheimsþýðingin? Í formála útgáfunnar frá 1950 var sagt að þetta heiti vitnaði um þá sannfæringu að mannkynið stæði „á þröskuldi nýja heimsins“ sem er lofað í 2. Pétursbréfi 3:13. Nefndin tók fram að það væri mikilvægt að „hinn hreini sannleikur í orði Guðs“ fengi að skína í biblíuþýðingum núna á þeim tíma þegar „nýr réttlátur heimur væri í þann mund að taka við af þeim gamla“.

Nákvæm þýðing

Mikil áhersla var lögð á nákvæmni. Enska útgáfan var þýdd beint úr frummálunum, hebresku, arameísku og grísku, eftir bestu fáanlegu grunntextum. Þess var sérstaklega gætt að þýðingin væri eins trú hinum forna texta og hægt var – en á máli sem væri auðskilið fyrir nútímalesendur.

Það kemur ekki á óvart að sumir fræðimenn hafa lofað Nýheimsþýðinguna fyrir orðtryggð og nákvæmni. Prófessor Benjamin Kedar-Kopfstein, hebreskufræðingur í Ísrael, sagði árið 1989: „Í málvísindalegum rannsóknum mínum sem tengjast hebresku biblíunni og þýðingum leita ég oft til enskrar þýðingar sem kallast Nýheimsþýðingin. Það hefur æ ofan í æ staðfest þá tilfinningu mína að þetta verk endurspegli heiðarlega tilraun til að draga fram eins nákvæma merkingu textans og hægt er.“

Gefin út á fjölda tungumála

Vottar Jehóva hafa gefið út Nýheimsþýðinguna á fleiri tungumálum en ensku. Hún er nú til í heild eða að hluta á meira en 250 tungumálum. Til að auðvelda þýðendum verkið var þróuð aðferð sem sameinar rannsóknir á biblíuorðum og tölvutækni. Sett var á laggirnar stoðdeild sem kallast Þýðingaþjónustan til að aðstoða þýðendur. Ritnefnd stjórnandi ráðs Votta Jehóva hefur nána umsjón með biblíuþýðingum fyrir hönd ráðsins. En hvernig fer þessi vinna fram?

Byrjað er á að velja trausta einstaklinga í söfnuðinum í þýðingarteymi. Reynslan hefur sýnt að þýðingin verður betri og liprari þegar þýðendur vinna saman í stað þess að vinna hver út af fyrir sig. (Orðskviðirnir 11:14) Að jafnaði hafa allir í teyminu reynslu af því að þýða rit Votta Jehóva. Teymið fær rækilega kennslu í grundvallaratriðum biblíuþýðinga og notkun hugbúnaðar sem er sérhannaður fyrir biblíuþýðingar.

Þýðingarteyminu er kennt hvernig textinn geti bæði verið nákvæmur en samtímis auðskilinn fyrir almenna lesendur. Þýðingin á að vera bókstafleg þegar hægt er en ekki að því marki að það brengli merkingu frumtextans. Hvernig er hægt að tryggja það? Tökum nýútkomna biblíu sem dæmi. Teymið byrjaði á því að velja íslensk orð fyrir öll helstu biblíuorðin sem notuð eru í ensku Nýheimsþýðingunni. Hugbúnaður sem kallast Watchtower Translation System sýnir skyld biblíuorð og samheiti. Hann sýnir jafnframt grísku eða hebresku orðin að baki ensku þýðingunni þannig að þýðendurnir gátu skoðað hvernig frummálsorðin voru þýdd í mismunandi samhengi. Þegar teymið var búið að koma sér saman um orðalistann byrjaði það á sjálfri biblíuþýðingunni. Hugbúnaðurinn sýndi þá íslensku orðin sem höfðu verið valin vers fyrir vers.

En þýðingar eru auðvitað annað og meira en að skipta út orðum í einu máli fyrir annað. Mikil vinna var lögð í að tryggja að íslensku orðin skiluðu réttri merkingu eftir samhengi á hverjum stað. Það þurfti að gæta þess að málfræði og setningabygging væri þægileg og eðlileg. Útkoman er til vitnis um alla vinnuna sem lögð var í verkið. Íslensk útgáfa Nýheimsþýðingarinnar er þýdd með þeim hætti að hún er auðlesin, skýr og skiljanleg og jafnframt trú hinum forna texta. d

Við hvetjum þig til að kynna þér Nýheimsþýðingu Biblíunnar. Þú getur lesið hana á netinu eða í JW Library-appinu, eða fengið prentað eintak hjá næsta söfnuði Votta Jehóva. Þú getur treyst því að hún hafi að geyma ósvikin orð Guðs á málinu þínu. Þú kemst eflaust að þeirri niðurstöðu að með útgáfu þessarar Biblíu hafi merkum áfanga verið náð!

 

Nýheimsþýðingin ásamt ítarefni

 

Kynning á orði Guðs: Tekin eru saman biblíuvers sem svara 20 spurningum um grundvallarkenningar Biblíunnar.

Nákvæm þýðing: Ítrustu nákvæmni var gætt við að þýða hebreska, arameíska og gríska frumtextann á ensku og síðan úr ensku á íslensku.

Millivísanir: Vísa lesandanum á tengd biblíuvers.

Viðauki A: Bent er á einkenni þessarar þýðingar eins og stíl og orðaval og hvers vegna nafn Guðs er þýtt eins og raun ber vitni.

Viðauki B: Litprentuð kort og skýringarmyndir í 15 hlutum.

a Almennt kallaðar Gamla testamentið.

b Verkefnisstjórinn yfir þýðingu New International Version skrifaði til dæmis: „Jehóva er eiginnafn Guðs og æskilegt hefði verið að nota það. En við lögðum 2,25 milljónir dollara í þessa þýðingu og það er nokkuð víst að allt hefði farið í súginn ef við hefðum til dæmis þýtt Sálm 23 þannig: ‚Jahve er hirðir minn.‘ Þýðingin hefði þá verið til einskis.“

c Almennt kallaðar Nýja testamentið.

d Nánari upplýsingar um meginreglur við biblíuþýðingar og helstu einkenni íslensku þýðingarinnar má finna í viðauka A1 og A2 í Nýheimsþýðingunni.