Vottar Jehóva hjálpa til við að fegra Rostov-na-Donú
Þann 20. maí 2015 sendi borgarritari Rostov-na-Donú, stærstu borgarinnar í suður Rússlandi, þakkarbréf til Votta Jehóva og hrósaði þeim fyrir „mjög góða þátttöku í vorhreinsun borgarinnar.“
Vottar Jehóva frá fjórum söfnuðum tóku þátt í samfélagsátaki að fegra Rostov-na-Donú og hreinsuðu upp rusl og drasl sem hafði safnast við göngustíga og árbakka. Á fáeinum klukkustundum fylltu þeir um 300 ruslapoka sem voru síðan fluttir burt á vörubílum.
Hvers vegna voru vottarnir svona ákafir að hjálpa bæjarfélaginu? „Mér stendur ekki á sama“ sagði Raisa sem er 67 ára. „Ég vil að borgin mín sé hrein svo að allir geti búið í snyrtilegu umhverfi. Ég nýt þess að taka þátt þótt fáir viti af því sem við höfum gert. Jehóva Guð sér okkur.“ Aleksander bætir við: „Við boðum ekki bara trúna, við gerum líka ýmislegt annað gagnlegt. Það veitir mér gleði og ánægju að geta gert eitthvað fyrir nágranna mína.“
Fólk kunni að meta hvað vottar Jehóva voru fúsir að taka þátt í þessu átaki. Einn borgarbúi varð mjög hissa þegar hann heyrði að vottarnir fengju ekki greitt fyrir þessa vinnu. Hann ákvað að taka þátt í hreinsuninni með þeim og sagði seinna: „Það hvarflaði ekki að mér að það gæti verið svona skemmtilegt að hreinsa til.“ Hann bætti við: „Sum ykkar eigið ekki einu sinni heima hérna en tókuð samt þátt í að hreinsa fyrir okkur.“
Embættismaður hjá borginni tók eftir því að lítill hópur votta hafði safnað óvenju miklu rusli. Hann tók mynd af hópnum hjá öllum ruslapokunum sem hópurinn hafði fyllt „til að sýna öðrum hvernig á að vinna verkið.“