Vottar Jehóva hjálpa til við að hreinsa skóg nálægt Lviv
Þann 6. maí, 2017, tóku um 130 vottar Jehóva þátt í hreinsunarátaki í skóginum við þorpið Bryukhovychi nálægt Lviv í Úkraínu. Sjálfboðaliðarnir sem voru á aldrinum 22 til 80 ára búa og vinna nálægt skóginum, á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Úkraínu. Þeir hreinsuðu 50 hektara svæði og tíndu um 600 kg af rusli á aðeins þremur klukkustundum.
Samkvæmt Mykhailo Splavinskyi, yfirverkfræðingi við ræktunarmiðstöð Lviv skógarins, voru Vottar Jehóva fyrstir til að taka þátt í árlegu hreinsunarátaki í skóginum og hafa gert það árlega síðan 2014.
Hvers vegna var þörf á að hreinsa skóginn?
„Það eru tvær ástæður fyrir rusli í skóginum,“ segir Mykhailo Splavinskyi. „Í fyrsta lagi skilja sumir eftir rusl þar. Í öðru lagi er úrgangi vegna byggingaframkvæmda ásamt öðru rusli ekið þangað á vörubílum og skilið eftir.“
Rusl er alvarlegt vandamál í skóginum. „Rusl er lengi að brotna niður,“ segir Mykhailo Splavinskyi. „Síðan mengar það grunnvatn og það orsakar vandamál í vistkerfinu.“ Gler sem hefur verið hent getur margfaldað styrk sólargeisla og kveikt skógarelda. Og fólki getur stafað hætta af glerbrotum og sprautunálum, sérstaklega ungum börnum. Hann segir: „Hægt er að forðast þessi vandamál með því að hirða rusl.“
Það er hægara sagt en gert að hreinsa 3.300 hektara skóg. „Við höfum aðeins fimm skógarverði,“ útskýrir hann, „svo að það er útilokað að við getum hreinsað svo stórt svæði. Þess vegna biðjum við almenning einu sinni á ári að aðstoða okkur við að hreinsa skóginn.“
Safna, flokka og farga
Með hanska, plastpoka og hrífur að vopni safna vottar, sem eru sjálfboðaliðar, flöskum, hjólbörðum, gleri, málmi, pappír, plasti og notuðum sprautunálum. Fyrir vikið er svæðið sem vottar Jehóva annast mjög hreinlegt, að mati Ihor Fedak, skógarvarðar á svæðinu.
Sjálfboðaliðarnir flokka ruslið í gler, pappír og plast sem gerir mögulegt að endurvinna það þótt það sé ekki enn skylda samkvæmt lögum. Ruslið fer síðan í vinnslu hjá sorphirðufyrirtæki. Frá 2016 hafa vottarnir greitt sjálfir fyrir förgun á ruslinu sem þeir safna. „Vottar Jehóva eiga þakkir skyldar fyrir hjálpina,“ segir Ihor Fedak. „Við fáum mikla hjálp frá þeim.“
Það er ekki fyrir neðan virðingu þeirra að taka til
Vottunum finnst gaman að taka þátt í árlegri hreinsun á skóginum. Þeir vilja leggja sitt að mörkum til að stuðla að heilbrigðu samfélagi og hreinum skógi. Volker segir að það sé algengt að vottarnir segi að það sé ekki fyrir neðan virðingu þeirra að hreinsa til og að þeim finnist virðingarvert að gera eitthvað fyrir aðra og það veiti þeim ánægju.
Anzhelika bætir við: „Það sem máli skiptir er ekki hver henti ruslinu heldur hvað ég get gert til að fjarlægja það.“ Lois sem er 78 ára tók einnig þátt í átakinu. Hún segir: „Í staðinn fyrir að láta ruslið fara í taugarnar á sér í göngutúrum er betra að taka það upp og ganga frá því.“
„Fólk sér okkur vanalega í fínum fötum með bindi, tilbúin að segja öðrum frá trú okkar,“ segir Wieslaw. „En við erum líka fús að bretta upp ermarnar og hreinsa umhverfið eða gera eitthvað annað sem kemur fólki að gagni.“