Eftirminnileg ferð
Á hverju ári heimsækja tugþúsundir deildarskrifstofuna í Bandaríkjunum og aðalstöðvar Votta Jehóva í New York-fylki. Þessir staðir eru kallaðir Betel, en það er hebreskt nafn sem merkir ‚hús Guðs‘. Fólk kemur frá öllum heimshornum til að skoða prentsmiðjurnar, kynna sér hvernig starf okkar er skipulagt og heimsækja vini sína sem vinna þar. Einn nýlegur gestur var sérlega ákveðinn í að koma.
Marcellus er einn af vottum Jehóva en hann býr í Anchorage í Alaska í Bandaríkjunum. Marcellus fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum og getur ekki sagt nema fáein orð. * Hann er bundinn við hjólastól og þarf að fá aðstoð við dagleg störf. Þrátt fyrir þessar hindranir hafði hann brennandi löngun til að heimsækja Betel. Nýverið lét hann drauminn rætast.
„Hann var harðákveðinn,“ segir Corey, vinur sem hjálpaði Marcellus að undirbúa ferðina. „Hann hringdi reglulega í mig til að forvitnast um hvernig undirbúningurinn gengi. Þar sem orðaforði hans takmarkast að mestu við ‚já‘ og ‚nei‘ þurfti ég að spyrja hann nokkurra spurninga í hvert skipti sem hann hringdi. Samtölin voru eitthvað á þessa leið:
„Viltu að ég komi til þín?“
„Nei.“
„Viltu að ég hringi á lækni?“
„Nei.“
„Hringdirðu til að spyrja um ferðina þína til Betel?“
„Já.“
„Svo þurfti ég að skýra fyrir honum hve langt á leið ég væri kominn í undirbúningsvinnunni. Það gladdi mig mikið að sjá hann ná þessu markmiði sínu.“
Marcellus þurfti að yfirstíga margar hindranir til að komast í ferðina. Þar sem hann hefur ekki miklar tekjur þurfti hann að safna í tvö ár fyrir ferðinni til New York sem er 5.400 kílómetra löng. Vegna veikinda sinna þurfti hann að finna ferðafélaga sem var hæfur til að sjá um hann. Og loks þurfti hann læknisleyfi fyrir flugferðina, sem hann fékk aðeins örfáum dögum fyrir brottför.
Þegar Marcellus kom til New York fékk hann skoðunarferð um byggingarnar í Brooklyn, Patterson og Wallkill. Hann fékk að sjá hvernig bækur og biblíur eru prentaðar í risastórum prentsmiðjum og lærði margt nýtt um hvernig starfsemin er skipulögð. Hann sá líka sýningu um nafn Guðs sem nefnist „The Bible and the Divine Name“ og aðra sem nefnist „A People for Jehovah‘s Name“. Á meðan á skoðunarferðinni stóð eignaðist hann marga nýja vini. Þetta var sannarlega eftirminnileg ferð.
Margir þeirra sem heimsækja Betel eiga varla orð til að lýsa upplifun sinni. En þegar Marcellus var spurður hvort ferð hans hafi verið erfiðisins virði, svaraði hann á þann eina hátt sem hann gat: „Já. Já. Já!“
Heimsókn til Betel getur verið uppörvandi reynsla fyrir þig og fjölskyldu þína, líkt og hún var fyrir Marcellus. Við bjóðum gesti velkomna á deildarskrifstofur okkar um allan heim. Hví ekki að koma í heimsókn?
^ gr. 3 Marcellus lést 19. maí árið 2014 þegar verið var að leggja lokahönd á þessa grein.