Að slökkva eld
„Eldur! Það er kviknað í!“ Sandra var að borða morgunmat heima hjá tengdaforeldrum sínum þegar hún sá eld koma undan hurð á skúr við hliðina á íbúðarhúsinu. Hún og Tómas, eiginmaður hennar, brugðust skjótt við. Á meðan Sandra sótti slökkvitækið hljóp Tómas að skúrnum til að meta aðstæður. Sandra flýtti sér með slökkvitækið til Tómasar sem slökkti eldinn. „Ef við hefðum ekki tekið til okkar ráða hefði skúrinn getað brunnið til grunna,“ segir Sandra.
Hvernig gátu Thomas og Sandra komist hjá óðagoti og brugðist svona örugg við? Þeim hafði verið kennt að bregðast við eldsvoða, ásamt 1000 öðrum sjálfboðaliðum sem vinna á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Selters í Þýskalandi.
Á 30 hektara svæði deildarskrifstofunnar í Selters eru byggingar sem eru ekki bara skrifstofur og íbúðir heldur þvottahús, prentsmiðja og mismunandi verkstæði, en þar getur verið sérstök eldhætta. Þess vegna setti öryggis- og umhverfisdeild deildarskrifstofunnar upp áætlun til að kenna eldvarnir. Í fyrsta lagi æfir öryggisteymi með slökkviliðinu á svæðinu. Í öðru lagi gera allir sjálfboðaliðar á deildarskrifstofunni eftirfarandi:
Taka þátt í brunaæfingu.
Taka þátt í eldvarnarnámskeiði.
Læra að slökkva eld á byrjunarstigi.
Þannig öðlast sjálfboðaliðar færni sem er ómetanleg þegar hættuástand skapast.
Öruggar slökkviæfingar
Þátttakendur fengu æfingu í að slökkva eld af öryggi. Christin sem hafði síðast fengið fræðslu um eldvarnir í grunnskóla lýsir æfingu á deildarskrifsofunni þannig: „Ég greip slökkvitækið, opnaði það og nálgaðist eldinn þannig að hann sneri undan vindi. Annars hefðu eldslogarnir náð í andlitið á mér. Síðan slökkti ég eldinn upp á eigin spýtur. Ég lærði líka að slökkva eld í hóp með fjórum eða fimm öðrum.“
Æfingarnar draga úr „ótta við eld,“ segir Daniel, sem vinnur á deildarskrifstofunni við að þjálfa fólk í eldvörnum. „Þegar eldur brýst út lamast fólk oft,“ segir hann. Fólk verður hrætt og hugsar: „Hvað á ég að gera? Hvernig notar maður slökkvitæki?“ En ef fólk veit hvað það á að gera getur það auðveldlega komið í veg fyrir að lítill eldur breytist í eldhaf. „Á æfingum öðlast þátttakendur færni í að halda rétt á slökkvitæki þegar neyðartilfelli kemur upp og slökkva eldinn. Þeir fá sjálfstraust og hugrekki til að taka af skarið þegar þörf gerist.“
Æfingin borgar sig
Margir láta í ljós þakklæti fyrir þjálfunina. Christin, sem áður er getið, viðurkennir: „Þetta var í fyrsta skipti sem ég hélt á slökkvitæki. Mér finnst að allir ættu að fá svona þjálfun.“ Nadja er í hlutastarfi sem sjálfboðaliði á deildarskrifstofunni og vinnur einnig á flugvelli. Hún segir: „Á síðustu tíu árum hef ég aðeins fengið fræðilega kennslu um eldvarnir á flugvellinum. En verkleg kennsla á deildarskrifstofunni hefur gefið mér meira sjálfstraust. Ef eldur brýst út veit ég hvað ég á að gera.“
Sandra er sannfærð um að þjálfunin á deildarskrifstofunni hafi gert henni kleift að bregðast svona fljótt við á heimili tengdaforeldra hennar. „Ég er ekki eins hrædd við að nota slökkvitæki,“ segir hún. „Það er gott að hafa æfingu á hverju ári. Það hefur örugglega hjálpað mér.“
Að æfa með slökkviliðinu á svæðinu
Slökkviliðið á svæðinu heldur reglulega æfingar á landi deildarskrifstofunnar. Varðstjórinn, Theo Neckermann útskýrir hvers vegna: „Slökkvistöðin okkar ber ábyrgð á sveitafélaginu Selters sem er dreifbýli. Við erum yfirleitt að kljást við eld í íbúðarhúsnæði. Húsnæði deildarskrifstofunnar hefur sérstöðu á svæðinu vegna stærðar bygginga og iðnaðarstarfsemi. Við þurfum að afla okkur viðbótar þekkingar til að takast á við neyðartilfelli í slíku húsnæði. Þess vegna erum við ánægðir og þakklátir að geta æft okkur hérna.“
Rúmlega 100 einstaklingar í öryggisteyminu æfa björgunaraðgerðir og hafa brunaæfingar með slökkviliðinu. „Öryggisteymi ykkar á hrós skilið. Brunaæfingar og neyðaráætlanir myndu ekki ekki ganga svona vel ef við fengjum ekki hjálp og leiðbeiningar frá ykkur,“ segir Theo Neckermann.
Slökkviliðið og öryggisteymið sýndu hvað í þeim býr kvöld eitt í febrúar 2014. Íbúð í einni af íbúðabyggingunum fylltist af reyk. „Reykurinn var svo þéttur að sáum ekki handa okkar skil,“ segir Daniel sem áður er getið. „Við höfðum samstundis samband við slökkviliðið og byrjuðum að rýma allar 88 íbúðirnar. Þegar slökkviliðið kom á staðinn voru við þegar búin að rýma alla bygginguna.“ „Ég get ekki ímyndað mér hvernig væri hægt að rýma svo stóra byggingu á svona skömmum tíma í borg eins og Frankfurt. Þið eruð mjög öguð og öryggisteymið hjá ykkur stóð sig frábærlega.“ Slökkviliðsmennirnir fundu upptökin og komust fyrir vandamálið. Enginn meiddist og ekki urðu neinar alvarlegar skemmdir.
Allir sem vinna á deildarskrifstofunni í Selters vona að það komi aldrei til þess að alvarlegur eldur brjótist út. En ef til þess kæmi eru sjálfboðaliðar viðbúnir vegna þess að þeir hafa lært að slökkva eld.