Hoppa beint í efnið

Ritatrillur á ferðamannastöðum í Þýskalandi

Ritatrillur á ferðamannastöðum í Þýskalandi

Í stórborgum víða um heim eru gangandi vegfarendur orðnir vanir að sjá ritatrillur með biblíutengdum ritum sem Vottar Jehóva gefa út. Til að mynda hafa vottarnir í Þýskalandi stillt upp ritatrillum í Berlín, Köln, Hamborg, München og öðrum iðandi stórborgum.

En ætli þessar aðlaðandi ritatrillur séu eins áhrifaríkar í minni bæjum þar sem þjóðverjar eyða fríunum sínum? Hvernig viðtökur ætli ritatrillurnar fái í ferðamanna- og strandbæjum Norður-Þýskalands og á eyjum Eystrasalts og Norðursjávar? Deildarskrifstofa Votta Jehóva í Mið-Evrópu skipulagði sérstakt átak 2016 til að fá úr því skorið. Frá maí til október buðust um 800 sjálfboðaliðar, sem nota ritatrillur í stórborgum, til að vera með ritatrillur á um 60 stöðum í Norður-Þýskalandi. Sumir þeirra voru frá jafn fjarlægum borgum eins og Vín í Austurríki.

„Hluti af bæjarlífinu“

Það var tekið vel á móti vottunum. Einn sjálfboðaliði segir svo frá: „Fólk sýndi áhuga. Það var vingjarnlegt, forvitið og vildi ræða málin.“ Heidi fór til bæjarins Plön. Hún segir: „Eftir fáeina daga vorum við orðin hluti af bæjarlífinu í augum fólks. Sumir sem þekktu okkur aftur vinkuðu okkur.“ Heyrnalaus maður sagði á táknmáli: „Þið eruð alls staðar.“ Hann og vinir hans höfðu verið á móti heyrnalausra í Suðaustur-Þýskalandi þar sem hann hafði líka hitt votta Jehóva.

Sumir bæjarbúar reyndust meira að segja hjálplegir. Á eyjunni Wangerooge kom lögregluþjónn til vottanna og benti þeim vingjarnlega á hvernig þeir gætu náð til fleira fólks. Í Waren við vatnið Müritz beindi skipstjóri í bátsferð athygli farþeganna að áhugaverðum stöðum. Hann benti á ritatrillu á hafnarsvæðinu og sagði: „Og þarna getið þið lært um Guð.“ Þó nokkrir ferðamenn dokuðu við og lásu spjöldin á ritatrillunum.

Bæði ferðamenn og bæjarbúar sýndu áhuga á þessum þremur bæklingum:

  • Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? Ferðamaður sagði: „Ég hef lengi velt þessari spurningu fyrir mér. Nú þegar ég er í fríi hef ég loksins tíma til að lesa um þetta.“

  • Gleðifréttir frá Guði. Roskinn maður sagði vottunum að trúarbrögðin hefðu valdið honum vonbrigðum. Vottarnir hjálpuðu honum að sjá að enginn maður getur leyst vandamál okkar mannanna, Guð einn er fær um það. Maðurinn þáði bæklinginn með þökkum og lofaði að lesa hann.

  • Biblíustundin mín. Faðir leyfði lítilli dóttur sinni að taka bæklinginn sem er sérstaklega ætlaður ungum börnum. Auk þess tók hann eintak af bókinni Biblíusögubókin mín og sagði: „Þetta er góð bók fyrir krakkana mína.“

    Vegfarendur fengu rúmlega 3.600 rit. Sumir báðu vottana um að heimsækja sig og halda umræðunum áfram.

Vottarnir sem tóku þátt í átakinu voru mjög ánægðir. Hjónin Jörg og Marina fóru til svæðis nálægt strönd Eystrasalts. Þau sögðu: „Þetta var einstök gjöf. Við gátum notið sköpunarverks Guðs og á sama tíma rætt um hann við aðra.“ Lúkas, sem er 17 ára, segir: „Mér fannst þetta frábært. Þetta var ekki bara gaman heldur gat ég líka gefið öðrum nokkuð sem er dýrmætt.“